Íslenskir jöklar

Tilfinningin þegar ég snerti jökul árið 1998 á hringferðalagi með Gógó ömmu heitinni og Sigga afa heitinum er mjög ofarlega í minni mínu, ég hafði áður farið á snjósleðaferð á Langjökul en þessi tilfinning situr meira í mér. Ég man hvað ég fann fyrir krafti jökulsins, hvernig lyktin var við jökulinn, kyrrðin og stærðin. Eina sem ég man um staðsetningu þó er að þetta var Öræfajökull og mjög erfið keyrsla upp að honum, við gistum líka eitthverstaðar við fallegan læk í náttúrunni og ég man mér fannst nú ansi mikið vesen á þeim að geta ekki gist bara á tjaldstæði og gert eðlilega hluti eins og flest fólk. En nú í dag þykir mér hvað vænst um þetta ævintýraferðalag úr æsku og reyni ítrekað að skapa það aftur með börnunum mínum. Ég hef nú fundið lækinn og staðinn aftur sem við gistum við, þar eru nú komin hús. Staðurinn er Hof í Skaftafelli sem ég hef verið svo blessunarlega heppin að geta heimsótt og gist í fallegu rauðu húsi með lækinn og gilið fyrir ofan með börnunum mínum og þykir mér alveg einstaklega vænt um þennan stað.

Ég fór í mina fyrstu jöklagöngu árið 2011 þá búandi í eyðimörkinni í sameinuðu arabísku furstadæmunum, þá fann ég hvað ég elskaði Ísland mikið og hvað náttúran var kröftug og hvað ég saknaði hennar, ég var ekki tilbúin að flytja heim strax en ég fann að náttúran kallaði samt einstaklega mikið á mig heima á Íslandi.

Árið 2014 flutti ég svo heim til Íslands eftir stöðug ferðalög til allra heimsálfna og þá var það íslenska náttúran sem gjörsamlega greip mig. Í gegnum náttúruna fann ég frið og stað í sálinni eftir allt áreitið og öll ævintýrin sem ég hafði upplifað. Þá vaknaði þessi gríðarlegi áhugi á íslensku jöklunum og það hjálpaði líka vissulega til að barnsfaðir minn var líka mikill jöklaáhugamaður og stofnaði fyrirtæki með skipulagðar ferðir á jökla. Ég á mynd af mér í jöklagöngu komin 38 vikur á leið með fyrsta barnið mitt og aðra mynd þar sem seinna barnið er í barnabílstól fyrir framan Svínafellsjökul, hvatvísinn hjálpar oft í að skapa eftirminnilegar góðar minningar og ég hlæ oft yfir þessum myndum.

Vorið 2020 byrjaði ég að heimsækja Kötlujökul og var gjörsamlega dolfallinn yfir fegurð landsvæðissins þar, Hafursey, svarti sandurinn og jökullinn mætast þar og oft má einungis sjá fjóra liti á þessu svæði, svartan, bláan, hvítan og grænan. Hjartað mitt verður alltaf yfirfullt af hamingju þegar ég heimsæki þennan stað og er hann klárlega á topp 5 listanum mínum.

Jöklar sem ég hef heimsótt hvað mest og myndað eru Sólheimajökull, Kötlujökull, Svínafellsjökull, Falljökull, Fjallsárlón, Jökulsárlón og Breiðarmerkurjökull.

Ég hef miklar áhyggjur af hraðri bráðnum jöklanna og það stingur í augun að í hvert sinn sem ég heimsæki þá sé ég með berum augum hvað þeir hafa hopað mikið, þetta er gríðarlega sorgleg þróun sem hefur ýtt mér hvað meira í að festa þá á filmu þegar ég heimsæki þá. Jöklarnir breytast dag frá degi, ný form og mynstur myndast, nýr jarðvegur kemur í ljós og land í átt að jöklum stækkar. Þetta er þjóðargersemi og saga okkar Íslendinga sem er að hverfa dag frá degi.

Next
Next

Hugarangur